Heimkoman og fyrstu dagarnir

Mikið var nú gott að koma heim. Ég tók mér “sumarfrí” í vinnunni og var heima í 10 daga eftir aðgerðina, það var skynsamleg ákvörðun því ég var frekar þreytt fyrstu vikuna enda ekki að borða mjög mikið. Ég hefði ekki getað farið að vinna fulla vinnu 5 dögum eftir aðgerðina en ég veit að það hefur ekki verið mál hjá sumum konum að gera það, allt mjög einstaklingsbundið. Ég vinn líka í heilbrigðisgeiranum og hefði þurft að lyfta,toga og teygja sem hefði ekki hentað :) .

Það er skrýtin tilfinning þegar maturinn er svona lengi á leiðinni niður í mallakút og ég þarf að borða extra hægt og reyndar er ég bara að drekka og þarf að passa mig að drekka ekki of hratt. 1. vikan var þannig að ég var nú nokkuð svöng seinni part vikunnar og fannst mjög erfitt að vera bara á fljótandi fæði, langaði svo rosalega í mat. Ég lét það þó ekki eftir mér enda þarf maður að passa upp á að vinna með bandinu sínu en ekki á móti og það er sérstaklega mikilvægt þessa fyrstu daga og líka eftir fyllingar. Hættan er að ef troðið er í sig of mikið eða of hratt fyrstu dagana (reyndar alltaf) þá getur myndast auka poki fyrir ofan bandið og það vill maður ekki. Maður verður að hlusta á líkamann og bandið ;) . Það tekur líka tíma fyrir kroppinn að átta sig á nýjum “aðstæðum” og jafna sig eftir inngripið. Ég talaði við aðra konu sem var nýbúin að fara í aðgerð og hún sagði að hún upplifði líka hungurtilfinningu fyrstu dagana, þannig að það var gott að heyra að aðrir upplifðu það sama. Flestir eru þó ekki svangir fyrstu 2 vikurnar en byrja svo að vera svangir og geta broðað stærri skammta fram að 1. fyllingu.

Nú er ég að ljúka viku 3 og er byrjuð að borða allan venjulegan mat en vel maukaðan. Ég er hætt að finna fyrir þessu hungri sem var á viku 1 og 2 og verð mjög fljótt södd og er södd lengi. Þetta er tilfinnig sem ég hef ekki haft lengi, að verða södd. Ég var alltaf svöng eða kannski gráðug og stjórnlaus þrátt fyrir að maginn á mér væri yfirfullur og rúmlega það. Ég borða 3 máltíðir á dag og er ekkert að narta inn á milli og hef bara ekki lyst á því. Ég er mjög dugleg að drekka sem sennilega gefur fyllingu í magann líka. Ég passa mig á því að vera ekki borða allt of kaloríusnaðan mat þar sem ég er að borða svo litla skammta. Ég vil halda góðri orku og líða vel. Ég er samt töluvert langt undir því sem ég er vön að borða… sem var jú allt of mikið, ekki satt! Ég vigta mig 1 x í viku og skal leyfa ykkur að fylgjast með því en eftir viku 2 voru 5 kg farin en búast má við að léttast töluvert hratt fyrstu 4 vikurnar þar sem ég borða eingöngu fljótandi fyrstu 2 vikurnar og vel maukaðan mat næstu 2 vikurnar. Auk þess sem ég er viss um að mikill vökvu renni úr kroppnum fyrstu vikurnar á eftir. Eftir að jafnvægi er náð er alveg hægt að gera ráð fyrir 1/2 til 1 kg á viku en auðvitað koma vikur sem er minna líka. Samkvæmt rannsóknum sem ég hef lesið tilvitnarnir í má gera ráð fyrir að hin meðal magabandskona/maður missi ca 66 % af sinni umfram þyngd á 1-2 árum. Margir missa meira og sumir minna en þetta er meðaltalið. Þegar litið er yfir rannskónir á hjáveituaðgerð og svo magbandsaðgerð þá hefur komið í ljós að þeir sem fara í hjáveitu aðgerð missa aukakílóin hraðar en magabandsfólkið en eru í lokin í svipaðri prósentu og magabandsfólkið (samkv. þeim heimildum sem ég hef).Gaman væri líka að sjá samanburð á þessum aðgerðum í tengslum við hvernig gegnur að viðhalda ferlinu þ.e.a.s. að byrja ekki að bæta á sig aftur og líka hverjir langtíma aukaverkanir eru af þessum tveimur aðgerðum. Kannski get ég grafið það upp :)

Einföld skýring á því hvernig magabandið virkar

Lapbandið virkar þannig að sílikon hringur er settur utan um magann mjög ofarlega þannig að það er smá magi fyrir ofan bandið en bandið þrengir svo að “neðri”partinum af maganum. Þannig rennur fæðan miklu hægar í gegn auk þess sem þú færð þá tilfinningu að vera södd miklu miklu fyrr þar sem fleiri boð sendast til heilans en þegar maturinn rennur án fyrirstöðu niður. Sílikonhringinn er svo hægt að þrengja nú eða víkka ef þess þarf, með því að dæla í hann saltvatni eða tappa af. Þetta er þannig gert að í aðgerðinni sjálfri er sett lítið port/brunnur með slöngu sem leiðir í sílikon hringinn, og er fest við magavöðvann. Þetta port sést ekki utan á en ef ég strýk yfir magann finn ég það og það er einmitt það sem læknarnir gera þegar þeir fylla á hringinn eða taka úr honum. Þeir finna portið og stinga svo í húðina þar með sprautu og nota saltvatn til að fylla á hringinn. Mjög misjafnt er hvað fólk þarf að hafa mikla fyllingu í bandinu sínu en fyrsta fyllingin er framkvæmt ca 4 vikum eftir aðgerð, þegar mesta bólgan er farin úr sárunum og svæðinu þar sem bandið liggur. Fyllingin er sett í af t.d röngenlæknum á Domus (tímar eru pantaðir í gegnum Auðun) sem sjá á skjánum sínum hvernig rennslið er niður í maga með því að þú drekkur ákveðinn litaðan vökva.

Best er að horfa á myndbandið af aðgerðinni sem er hér til hliðar, til að fá góða mynd af því sem gert er og hvernig þetta virkar.

Aðgerðin

Spítalinn er í Birmingham þannig að þetta er smá ferðalag. Þar fann ég mér hótel nálægt spítalanum og fór svo í blóðprufu upp á spítala deginum fyrir aðgerð. Var mætt á spítalann kl 07 á aðgerðardegi og fór í viðtal við svæfingalækni og skurðlækni og fékk fljótlega að fara inn á mína einkastofu og gera mig klára fyrir aðgerðina. Það var svo sem ekki mikið mál bara skella sér í sjúkrahússfötin og glápa á sjónvarpið. Röðin kom að mér um hálf tíu og þá var mér fylgt niður á skurðstofu og aðgerðin framkvæmd skömmu síðar. Ég var svo vöknuð um 40 mín síðar en aðgerðin sjálf tekur um 30 mín og er gerð í gegnum nokkur göt á mallanum, enginn stór skurður. Mér bauðst að vera á sjúkrahúsinu yfir nóttina en ákvað að fara bara á hótelið aftur enda leið mér ágætlega. Ég var samt aum og marin og full af lofti en leið alveg ágætlega. Nú var það bara fljótandi fæði í 2 vikur og próteindrykkir og orkuríkir ávaxtasafar runnu ljúft en hægt niður. Nú þar sem allt gekk vel fór ég heim aftur með flugi á þriðja degi. Ferðalagið tók ca 12 tíma allt í allt og ég var frekar þeytt og dösuð og eftir á að hyggja hefði 1 dagur í viðbót í ró verið upplagður.

Ákvörðunin

Já eins og ég sagði í fyrri færslu þá var heilsan orðin frekar súr. Ég var komin með króníska verki í mjóbakið og vöðvabólgu, blóðsykurinn var farinn að rokka full mikið, ég var með bakflæði og ég átti erfitt með ýmsar hreyfingar - var bara hreinlega stirð vegna þess að ég hreyfði mig allt of lítið og líka vegna þess að bumban var fyrir. Þetta er allt saman vítahringur, ég fitna þá missi ég orku og langar ekki að æfa og hugga mig frekar með mat og fitna þá meira og líður enn þá verr og svo frv. Mér fannst erfitt að fara í sokka og skó sem dæmi. Ég var byrjuð að hrjóta og svaf þar af leiðandi illa og allt fer þetta nú í hringi þannig að andlega hliðin var frekar léleg. Lífsgæðin voru á mikilli niðurleið.

Ég fór að lesa mér til og leita annarra ráða og kom mér í samband við íslenskan lækni Auðun Sigurðsson sem framkvæmir magabandsaðgerðir í Bretlandi. Þessar aðgerðir eru ekki framkvæmdar heima á Íslandi, afhverju veit ég ekki. Ég átti gott spjall við hann og las mér enn meira til um þetta ferli og komst í samband við íslenskar konur sem höfðu farið í magabandsaðgerð hjá Auðni. Ræddi þetta fram og aftur við manninn minn bæði með tilliti til heilsunnar minnar almennt og ávinningsins fyrir okkur öll og svo fjárhagslegu hliðina líka því þessi aðgerð er dýr og er ekkert greitt niður. Tók svo ákvörðun um að fara í aðgerðina. Það sem styrkti mig sem mest í þessari ákvörðun og óvissu var sú vissa að hægt er að fjarlægja bandið hvenær sem er og ekkert er skorið úr mér eða tengt framhjá. Ég get ef út í það fer, tekið þetta allt til baka þó ég geri ráð fyrir að vera með bandið í mér alla ævi.Öllum aðgerðum fylgir áhætta og ég fór nú ekki salla róleg og áhyggjulaus til Bretlands.

Aukakílóabaráttan mín

Ég er nú búin að fara smá úr einu í annað hér í byrjun bloggsins en langar að deila með ykkur smá um mína fortíð í tengslum við aukakílóabaráttuna.

Sem barna var ég hroðalega horuð, bætti aðeins á mig á unglingsárunum en var enn mjög grönn. Ég hreyfði mig alltaf mikið og borðaði allan venjulegan heimilismat, það var ekkert um skyndibitamat á mínu heimili þegar ég var barn og afar sjaldan sælgæti eða gos. Mamma bakaði hins vegar mikið en ég var ekkert sérstaklega mikið að gæða mér á því. Þegar ég komst á unglingsárin fór aðgangur að sælgæti og gosi að vera meiri og ég var gjörsamlega sjúk í sælgæti og gat borðað endalaust af því á kostnað annarar fæðu. Ég flutti snemma að heiman til að fara í framhaldsskóla og þá byrjaði ég að stýra meira sjálf hvað ég borðaði, sælgæti var alltaf númer 1, 2 og 3 hjá mér og löngunin var sjúkleg. Ég var mjög mikið í íþróttum og hreyfði mig mjög mikið, því safnaðist ekkert á mig. Hins vegar var ég oft orkulaus og svaf illa og ég er viss um að það hafi bara verið vegna lélegrar næringu.

Þegar ég byrjaði hins vegar að eiga börnin mín þá byrjaði ég að bæta á mig smátt og smátt. Ég borðaði jafn óholt og áður en hreyfði mig ekki lengur að neinu viti… þá byrjaði ég að fitna smátt og smátt og í raun jókst allaf þessi matarfíkn mín sem var þá aðallega tengd sælgæti en þróaðist svo seinna meir út í almennan mat og allt of stórar máltíðir. Ég bara varð ekki almennilega södd og vaknaði stundum upp á nóttunni til að troða í mig. Til að gera langa sögu stutta þá voru “allt í einu” komin á mig 30 auka kíló. Ég reyndi eins og ég gat að hemja mig í mat og hreyfa mig reglulega en það fóru kannski nokkur kíló af mér en komu bara aftur stuttu seinna.Ég náði engu jafnvægi og andleg vanlíðan sem þessu fylgdi var hrikaleg. Ég var stöðugt með hugann við mat og holdarfar, þetta var orðið sjúklegt ástand. Ég var hætt að vilja fara á mannamót, gæti hitt einhvern sem þekkti mig þegar ég var mjó… svo passaði ég ekki í nein föt og kannaðist næstum ekki við mig í speglinum. Ég frestaði lífinu ómeðvitað. Hvernig jú ég á mér fullt af draumum eins og við öll eigum en ég vildi aldrei fara út í neinar framkvæmdir á þeim fyrr en ég væri búin að ná fullri heilsu aftur. Heilsan mín bæði andlega og líkamlega var frekar döpur og ég hafði barasta ekki orku í að gera nokkuð nema druslast í gegnum daginn ef ég gat það þá.

Ég var búin að prófa ýmislegt til að ná jafnvægi og betri heilsu, Herbalife, brennslutöflur, pródeinduft í bílhlössum, atkinskúrinn, kolvetnisnauðakúrinn, detox, GSA samtökin og Matarfíknar samtökin. Fullt er ég nú búin að læra á öllu þessu en mest hef ég lært af Matarfíknarsamtökunum og GSA. Mér hentar ekki að mæla matinn minn svona, ég bara meika það ekki í hvaða aðstæðum sem er og fannst þetta ekki vera rétta aðferðin fyrir mig. Þessi aðferð hjálpar hins vegar mörgum. Ég lærði samt í þessu ferli að ég er matarfíkill og lærði ýmislegt í kringum það með því að ræða við ráðgjafa og aðra matarfíkla. Það er sko frábær stuðningur í því og þá sá ég líka frekar hvað þetta var allt saman sjúklegt og það sem meira er að ég er ekki sú eina sem er að standa í þessu.Við erum svo mörg sem eigum við þetta að stríða og það er svo “gott” að geta fundið að maður er ekki einn í þessari baráttu og það eru fleiri sem upplifa ákkurat sömu tilfinningar og maður sjálfur.

Ábyrgðin er vissulega okkar en hvernig væri að fá samvinnu frá stjórnvöldum

Offita er algengasta heilsuvandamálið í okkar samfélagi í dag og ÓMG hvað það kostar okkur í peningum og vanlíðan. Ef ríkiskassinn legði meiri áherslu á alvöru-forvarnir í tengslum við offitu, þá er ég að meina ekki bara einhverja útgáfu bæklinga og fyrirlestra fyrir foreldra og skólafólk, heldur alvöru forvarnir sem leiða til betra mataræðis og meiri hreyfingu. Það þarf að koma með matinn og afhenta fólkinu, það þarf að opna möguleika á því að fólk geti hreyft sig á vinnutíma og þetta þarf ríkið að taka á sig að stórum hluta, annars verður lítill árangur. Hættum að eyða peningum í endalausa bæklinga og fyrirlestra sem allir eru orðnir hundleiðir á og skila okkur greinilega ekki tilætluðum árangri. Ráðum íþróttakennara, hjúkrunarfræðinga og svona Sollur í grænum kosti inn í fyrirtækin okkar. Ríkið borgar og eftir 10 ár erum við farin að spara…..og sem meira er farin að sjá hreyfingu í hina áttina varðandi offituvandamálið okkar.

Já, offita eykur líkunar á mörgum sjúkdómum og snemmbærum dauða (e. dying prematurely). Offita minnkar lífsgæði og leiðir oft til félagslegrar einangunnar og þunglyndis. Sem dæmi um aðra algegna sjúkdóma og fylgikvilla offitu:

  • Hjarta- og æðasjúkdómar
  • Sykursýki 2
  • Háþrýstingur
  • Nýrnasjúkdómar
  • lifrasjúkdómar
  • Hormónatruflanir
  • Þunglyndi og félagsfælni
  • Gallsteinar
  • Bakflæði
  • Kæfisvefn og svefnvandamál

Í dag eykst offituvandinn bara og við erum í því að plástra og gera við það sem við erum búin að skemma eða skaða. Við erum búin að þróa með okkur þennan sjúkdóm, offitusjúkdóminn, og náum ekki að stoppa útbreiðsluna. Við erum mörg hver búin að skemma eða skaða tímabundið þetta eðlilega kerfi líkamans sem tengist inntöku næringar- og orkuefna og hvernig við nýtum það. Ég t.d. veit ekki hvaða tilfinning á að koma þegar ég er södd, ég finn aldrei neitt sem segir stopp nú er komið nóg! Ég finn að maginn er vel fullur en hausinn segir þú þarft að fá þér meira og sú tilfinning vinnur yfirleitt. Náttúrulega kerfi líkamans virkar bara ekki á mig lengur. Ég er búin að skemma það (vonandi tímabundið) með því að bera ekki virðingu fyrir því í upphafi, kunna það hreinlega ekki, og láta allskonar drasl ofan í mig. Þegar ég meina drasl þá er ég að meina öll aukaefnin og bleikta sykurinn og allt hitt sem ég er viss um að rugli efnafræðilega í kerfinu okkar og búi til alls konar feiktilfinningar og langanir. Ég veit, ég veit, ég ber ábyrgð á þessu öllu en mikið væri gott ef umhverfið okkar styddi okkur frekar í hina áttina. Fyrst ég ber ábyrgð á þeirri stöðu sem ég er komin í hlýt ég líka að bera ábyrgð á því að snúa dæminu við. Ég ákvað því að besti kosturinn fyrir mig væri að fara í magabandsaðgerð og fá þannig stuðninginn til þess rjúfa þennan vítahring sem ég er í og koma mér á þann stað sem ég lifi lífinu lifandi og er stolt af því að bera þá ábyrgð. Ég valdi þessa leið en það getur verið að önnur leið henti þér…. bara gott mál.

Ástæður

Fyrir mig var það mikið mál að ákveða að fara í magabandsaðgerð. Ég las mér töluvert til um aðgerðina sjálfa, blogg annarra sem höfðu farið í aðgerðina, horfði á myndbönd á youtube auk þess að ræða við lækninn sem framkvæmdi aðgerðina og aðrar konur sem voru búnar að fara í aðgerðina eða búnar að ákveða að fara. Vinnan í kringum þetta ferli var svo sem ekki neitt vísindaleg og ég fór auðvitað af stað í þessa upplýsingaöflun með það að leiðarljósi að fara í aðgerðina en hafa alltaf þann möguleika að hætta við ef það væri eitthvað sem ég kæmist að og gæti ekki sætt mig við. Í stuttu máli sagt komst ég ekki að neinu sem fældi mig frá aðgerðinni en það komu að sjálfsögðu upp margar spurningar og stundum efasemdir. Efasemdirnar tengdust þó miklu frekar þeirri umfjöllun sem oft er í kringum of feita einstaklinga og þau úrræði eða leiðir sem þeir velja. Mér finnst við búa í samfélagi í dag sem er með mikla samþykkta fordóma gagnvart feitu fólki. Við feita fólkið eigum bara að taka okkur saman í andlitinu, fara út að hlaupa eða í ræktina og borða minna af óhollustu. Hljómar afar einfalt og flest öll höfum við reynt þetta. Sumir ná frábærum árangri með því að auka hreyfingu og borða hollara en það er enn stór hópur fólks sem nær ekki árangri á þennan hátt nema kannski í skamman tíma. Við erum þau sem þurfum frekari aðstoð og veljum mörg hver að leita á náðir læknavísindana. Við ættum væntanlega ekki við þennan offituvanda að etja í heiminum í dag ef allir gætu hamið sig í matnum og skokkað 5 km á dag og þá væri málið dautt. Það eru óteljandi ástæður fyrir því að fólk verður feitt en flestir sem ég hef rætt við segja að þetta sé allt saman í hausnum á þeim. Þeir þurfi að læra að tengja mat við eitthvað annað en tilfinningar sínar, borða þegar ég er glöð, borða þegar mér líður illa, hugga mig með mat, verðlauna mig með mat og svo frv. Að koma sér út úr mynstrinu og vítahringnum er ekki alltaf auðvelt og sumir þurfa einfaldlega extra stuðning til þess. Ég vil ekki meina að magaband sé einhver allsherja lausn fyrir alla, svo langt frá því. Margir hafa sótt styrk í GSA, OA og Matarfíkn og náð frábærum árangri. Það er í raun alger snilld hvað þessi samtök hafa náð að styðja marga til betra lífs. Við megum heldur ekki gleyma því að það er einstaklingsbundið hvenær kílóin fara að hafa áhrif á heilsu og líðan okkar. Þú getur verið með nokkur “auka” kíló á þér en liðið vel bæði líkamlega og andlega, ekki með nein sérstök heilsufarslegvandamál og þá er það bara frábært og spurning hvort nokkuð ætti að kalla þessi kg “auka”. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á offitu og sjúkdómum sem koma í kjölfarið á þeim og las ég nýlega tilvitnun í rannsókn sem segir að yfirleitt sé það ekki nein sérstök heilsubót fyrir fólk sem er 27 BMI í að fara í 25 BMI (sem er efri mörk kjörþyngdar) nema það hafi sykursýki 2. Það sé þá aðalega útlitið sem það hefur áhrif á en ekki endilega heilsan sjálf. Við verðum auðvitað að vera skynsöm og hlusta á okkur sjálf og hvernig okkur líður. En það er alla vega klárt að minni hálfu að burðast með 30 auka kg hefur skaðað heilsu mína og minnkað lífsgæðin mín töluvert. Ég er hins vegar það heppin að þessi skaði er aðeins tímabundinn hjá mér en það er það ekki hjá öllum. Sumir munu eiga við ákveðin heilsuvandamál að stríða alla ævi þrátt fyrir að koma sér í kjörþyngd, skaðinn er kominn til að vera en hins vegar er öruggt að lífsgæðin aukast samt sem áður og margir kvillar hverfa alveg. Mér finnst sorglegt þegar ég heyri umræður um offitusjúklinga og offituaðgerðir sem fegrunaraðgerðir. Fegrunaraðgerðir/lýtaaðgerðir eiga fullan rétt á sér og margir sem hafa verið feitir en ná að grenna sig fara seinna í fegrunar/lýtaaðgerðir t.d til að taka auka skinn eða stækka brjóst eða lyfta brjóstunum og margt fleira. Hins vegar má ekki rugla því saman við markmið offituaðgerðirnar, sem er að minnka líkur á því að fólk missi heilsuna alveg og deyi um aldur fram. Auka plúsinn við að losna við auka kílóin er samt auðvitað bætt útlit en það nú oftast ekki aðalástæðan fyrir því að vilja losna við kílóin en verður oft sýnilegasti hlutinn af árangrinum fyrir aðra en þig. En öllum hýtur okkur að finnast dásamlegt að líta vel út, ekki satt!

Afhverju blogg?

Mér fannst alveg frábært að geta leitað mér ráða hjá reyndari konum þegar ég var að ákveða hvort ég ætti að fara í aðgerðina auk þess sem það hefur styrkt mig mikið eftir aðgerðina að geta lesið/skoðað hvað aðrir í svipuðum aðstæðum eru að ganga í gegnum. Lítið var samt um að íslenskar konur eða karlar séu að blogga um þessa reynslu sína en það er skiljanlegt ekki vilja allir vera með sín persónulegu mál á netinu. Það er þannig líka með mig að ég vil halda þessu prívat að einhverju leyti og því kaus ég að blogga ekki undir réttu nafn. En ég er til í að svara öllum fyrirspurnum sem kunna að koma bæði hér á blogginu sjálfu og á netfanginu lapbandgirl1@gmail.com