Ábyrgðin er vissulega okkar en hvernig væri að fá samvinnu frá stjórnvöldum

Offita er algengasta heilsuvandamálið í okkar samfélagi í dag og ÓMG hvað það kostar okkur í peningum og vanlíðan. Ef ríkiskassinn legði meiri áherslu á alvöru-forvarnir í tengslum við offitu, þá er ég að meina ekki bara einhverja útgáfu bæklinga og fyrirlestra fyrir foreldra og skólafólk, heldur alvöru forvarnir sem leiða til betra mataræðis og meiri hreyfingu. Það þarf að koma með matinn og afhenta fólkinu, það þarf að opna möguleika á því að fólk geti hreyft sig á vinnutíma og þetta þarf ríkið að taka á sig að stórum hluta, annars verður lítill árangur. Hættum að eyða peningum í endalausa bæklinga og fyrirlestra sem allir eru orðnir hundleiðir á og skila okkur greinilega ekki tilætluðum árangri. Ráðum íþróttakennara, hjúkrunarfræðinga og svona Sollur í grænum kosti inn í fyrirtækin okkar. Ríkið borgar og eftir 10 ár erum við farin að spara…..og sem meira er farin að sjá hreyfingu í hina áttina varðandi offituvandamálið okkar.

Já, offita eykur líkunar á mörgum sjúkdómum og snemmbærum dauða (e. dying prematurely). Offita minnkar lífsgæði og leiðir oft til félagslegrar einangunnar og þunglyndis. Sem dæmi um aðra algegna sjúkdóma og fylgikvilla offitu:

  • Hjarta- og æðasjúkdómar
  • Sykursýki 2
  • Háþrýstingur
  • Nýrnasjúkdómar
  • lifrasjúkdómar
  • Hormónatruflanir
  • Þunglyndi og félagsfælni
  • Gallsteinar
  • Bakflæði
  • Kæfisvefn og svefnvandamál

Í dag eykst offituvandinn bara og við erum í því að plástra og gera við það sem við erum búin að skemma eða skaða. Við erum búin að þróa með okkur þennan sjúkdóm, offitusjúkdóminn, og náum ekki að stoppa útbreiðsluna. Við erum mörg hver búin að skemma eða skaða tímabundið þetta eðlilega kerfi líkamans sem tengist inntöku næringar- og orkuefna og hvernig við nýtum það. Ég t.d. veit ekki hvaða tilfinning á að koma þegar ég er södd, ég finn aldrei neitt sem segir stopp nú er komið nóg! Ég finn að maginn er vel fullur en hausinn segir þú þarft að fá þér meira og sú tilfinning vinnur yfirleitt. Náttúrulega kerfi líkamans virkar bara ekki á mig lengur. Ég er búin að skemma það (vonandi tímabundið) með því að bera ekki virðingu fyrir því í upphafi, kunna það hreinlega ekki, og láta allskonar drasl ofan í mig. Þegar ég meina drasl þá er ég að meina öll aukaefnin og bleikta sykurinn og allt hitt sem ég er viss um að rugli efnafræðilega í kerfinu okkar og búi til alls konar feiktilfinningar og langanir. Ég veit, ég veit, ég ber ábyrgð á þessu öllu en mikið væri gott ef umhverfið okkar styddi okkur frekar í hina áttina. Fyrst ég ber ábyrgð á þeirri stöðu sem ég er komin í hlýt ég líka að bera ábyrgð á því að snúa dæminu við. Ég ákvað því að besti kosturinn fyrir mig væri að fara í magabandsaðgerð og fá þannig stuðninginn til þess rjúfa þennan vítahring sem ég er í og koma mér á þann stað sem ég lifi lífinu lifandi og er stolt af því að bera þá ábyrgð. Ég valdi þessa leið en það getur verið að önnur leið henti þér…. bara gott mál.