á niðurleið

Jæja greinilega komin í gírinn eftir fyllinguna, því nú eru kg byrjuð að rennan af. 3 kg þessa viku en það var líka stopp og bæting vikurnar áður. Alls 8 kg sem ég er bara ánægð með. Skrýtið hvernig kroppurinn virkar. Mataræðið er búið að vera gott, 3 máltíðir á dag. Borða hægt og verð fljótt södd, borða annars allt sem mig langar í þannig. Á ekki í erfiðleikum með neitt sérstakt eins og ég hef heyrt suma tala um. Er ekki að borða nammi það er eina breytingin á mínu mataræði fyrir utan magnið.

Er byrjuð að hreyfa mig reglulega. Hlaupa/ganga eins og þolið leyfir 3 x í viku í ca 30-40 mín og svo geng ég hina 4 dagana í ca 30 til 40 mín. Ætla að fara í ræktina og lyfta 4 sinnum í viku eftir næstu viku. Bara gaman.

Matarfíkn og átröskun

Grein sem birtist i mogganum eftir Lilju Guðrúnu fíkniráðgjafa og matarfíkil í bata
Matar- og/eða sykurfíkn er fíknisjúkdómur.  Sjúkdómurinn hefur bæði líkamlegar, andlegar og tilfinningalegar hliðar. Sá sem á við matarfíkn að stríða ánetjast matvælum með efnafræðilegum hætti og líkami einstaklinga með matarfíkn vinnur lífefnafræðilega öðruvísi úr mat heldur en líkami „venjulegra“ einstaklinga. Margir matarfíklar hneigjast til þess að ánetjast ákveðnum tegundum matvæla, s.s. sykri, hveiti, glúteni, fitu, salti, koffíni og/eða mat í miklu magni, rétt eins og alkóhólistinn sem ánetjast alkóhóli eða vímuefnum. Eftir því sem fíknin þróast og ágerist, verða matarfíklar vanmáttugir yfir hinni líkamlegu löngun sinni og er þá stutt í þráhyggjuna og afneitun á því sem er að gerast. Þráhyggjan birtist oft með þeim hætti að matarfíkilinn er gagntekin af mat. Hugsanir hans fara í miklum mæli að snúast um að ná sér í, undirbúa og borða ákveðin matvæli. Þá er sífellt verið að velta fyrir sér hvað sé hollt og hvað sé óhollt og hugsanir um komandi líkamsræktarátök verða yfirgnæfandi: Á morgun skal ég byrja, eftir helgi, á mánudaginn, eftir páskafrí,jólafrí, sumarfrí o.s.frv. Þráhyggju gagnvart mat fylgir nær undantekningarlaust þráhyggja gagnvart útiliti og þyngdarbreytingum.

Sem dæmi um nokkur einkenni og merki um matarfíkn má nefna óeðlilegar langanir í tiltekin matvæli, röskun á sjálfsmynd, lotu- og laumuát, ásamt almennri skömm og ótta í tengslum við mat. Sumir matarfíklar stela mat eða peningum til að kaupa mat, á meðan aðrir upplifa vanlíðan í aðstæðum þar sem þeir hafa ekki aðgang að mat. Matarfíklar breiða oft yfir tilfinningar sínar þegar verið er að tala um mat, át eða þyngd og leitast við að leiða umræðuna að einhverju öðru. Þar eru tengslin á milli sjúkdómsins og launungarinnar augljós. Fíknin sjálf þrífst hins vegar á óheiðarleika og einangrun.

Einstaklingur sem er að kljást við matar- eða sykurfíkn verður vonlaus, pirraður og niðurdreginn þegar allar tilraunir til að stjórna mataræðinu bregðast.  Það að hreyfa sig meira og borða minna, jafn einfalt og það virðist, er ekki að ganga sem skyldi. Sú leið hefur verið fullreynd og er ekki að virka. Eftir situr niðurbrotinn einstaklingur, uppgefinn á því að reyna sömu lausnirnar aftur og aftur, en án árangurs. Slíkur einstaklingur þarf hjálp við að takast á við tilfinningar sínar og hugsanir. (greininni lýkur hér)
Já tilfinningarnar og hugsanir eru einmitt það sem þarf að vinna vel með okkur sem erum að takast á við þetta. Fólk hefur fundið margar leiðir til þess; sumir notast við samtalsmeðferðir hjá sérfræðingum og eða í viðurkenndum hópum. Sumir finna sér sponsor eða vin og vinna sig t.d í gegnum 12 spora kerfið. Margt er hægt að gera en það VERÐUR að vinna með andlegu/tilfinningalegu hliðina samhliða mataræðinu annars fer allt hnút - þetta er bara staðreynd. Best er að vinna markvisst að með þessa þætti og muna að þetta er vinna og púl líka. Það er ekkert auðvelt að þurfa að horfsast í augu við alla fylgifiskana og orsakanirnar og taka á þeim í þokkabót.
Ég held að margir matarfíklar séu líka með átröskun og þá sérstaklega binge eating disorder.

Þekktustu átraskanirnar eru lystarstol (anorexia nervosa) og lotugræðgi (bulimia nervosa). Lotuofát (binge eating disorder) hefur nýlega verið skilgreint sem sjúkdómur og veldur oft offitu. Sumar átraskanir eru “blandaðar” með einkennum bæði frá lystarstoli og lotugræðgi og eru kallaðar óskilgreindar átraskanir.

Orðin full í fyrsta skipti……

Well, komin frá Birmingham og búin að fá mína fyrstu fyllingu. Þetta gekk nú ekki snuðrulaust fyrir sig hehe. Átti að mæta upp á spítala kl 09 og var alveg í tíma með það en svo byrjaði ég að finna fyrir einhverjum ónotum í maganum og ógleði. Þetta hlýtur að líða hjá, hugsaði ég og fór með leigubílnum upp á spítala. Það var svo mikil traffík að við vorum klst á leiðinni OMG og bíllinn alltaf að stoppa og gefa í… á endanum sagði ég við leigubílstjórann að ef hann flýtti sér ekki myndi ég æla út bílinn hans. Hann var fljótur að láta mig fá poka og þurrkur og gaf aðeins í og tróð sér inn á milli :) En ég komst sum sé rétt upp á sjúkrahús og beint inn á kló og kúgaðist og kúgaðist en ekkert kom upp. Komst að því þarna að vera með æluna og bandið er ekki að virka vel. Beið smá eftir Auðni en hann kom ekki eftir smá hringingar og þ.h komst ég að því að ég átti að mæta á hinn spítalann… en Auðun hafði samviskulega skrifað það í email til mín en ég lesið fram hjá því. Ég talaði við Auðun og sagði að ég væri bara veik og hann þyrfti að tæma af bandinu svo ég gæti skilað þessu og jafnað mig. Hann fékk einhverja hjúkku til þess og eftir það gekk allt greiðlega upp, mér til mikillar ánægju. Ég fór svo aftur upp á hótel að jafna mig og Auðun var svo elskulegur að koma upp á hótel um kvöldið og fylla aftur á bandið. Það var svo skrýtið þegar hann fyllti á bandið og ég ligg þarna þá finn ég bókstaflega þegar magaopið þrengdist, finn svona þrýsting, ekki vont samt. Hann setti 8 í bandið og ég reyndi að drekka vatn en það gekk heldur hægt og kom bara upp aftur, þá var tekið af 1 ml og þá gekk þetta vel. Var með 5 ml og er með 7ml núna en Auðun sagði að mjög sennilega þyrfti ég fyllingu aftur eftir ca 4 vikur. Núna í dag (fyllingin var í gær) finn ég alveg að ég hefði þolað kannski svona 0.5 ml meira, finnst bandið aðeins og slakt. En maður á að gefa þessu tíma og það tekur tíma að finna rétta ballansinn, þannig að ég held að eftir næstu fyllingu verði ég komin með súper stuðning :)

Ég hitti 2 aðra íslenska bandara þarna úti, við pöntuðum okkur á sama hótel og fórum út að borða saman eitt kvöldið og spjölluðum heilmikið um bandaraheiminn, það var mjög gaman að hitta þau og skiptast á reynslusögum og þh.

Snuff snuff

Upp um kg þessa viku. Kom mér reyndar ekki á óvart þar sem matarlystin er ekki búin að vera í felum og ekki heldur sykurlöngunin líka. Reyndar er það þannig að ég barasta finn ekki bofffsss fyrir að ég sé með band ákkurat núna, er alveg eins og ég var áður en bandið kom til sögunnar. Hlakka til að fara í fyllinguna á miðvikudaginn og hef að sjálfsögðu miklar væntinar til þess að fröken gráðug fari í felur aftur og verði þæg og góð eins og á viku 1 og 2.

Ég veit að það mun ekki nást neinn árangur örðuvísi en að vera hreinskilin við sjálfa sig og ég verð bara að viðurkenna það að ég hef hámað of mikið í mig. Það er ekki að ástæðulausu að ég ákvað að skella mér á bandið… þetta sýnir bara hvað ég er veik fyrir á þessu sviði. Um leið og slaknar á hjálpartækinu þá er fjandinn laus… styrkir mig enn meira í þeirri trú að ég hafi gert rétt með bandinu. Ekki möguleiki að ég geti klárað dæmið án aðstoðar enda hef ég reynt það eins og svo margir aðrir ótal sinnum og tapið er frekar fúlt. Nú verð ég bara að hugsa jákvætt og muna að þetta tekur allt saman sinn tíma og það mun alltaf koma smá bakslag í þessa baráttu eins og aðrar en málið er að fara strax upp á veginn aftur. Enda elsku dúllurnar mínar þá er 1 kg upp bara prump í poka :)

Læt í mér heyra eftir fyllinguna. Þið sem lesið bloggið mitt megið endilega kommenta hjá mér… mér þætti afskaplega vænt um það ;)

Diet Cola skrímslið

Ég er við það að slá heimsmet í flokki: “fertugra húsmæðra í daglegri drykkju á diet cola drykkjum”. Ferlega ógeðslegur titill samt! Nýlega skrifaði Sverrir Björn Þráinsson grein á pressan.is þar sem hann fjallar um skaðsemi gosdrykkjaneyslu, hann fjallar þó aðalega um gosdrykki sem innihalda sykur en diet gosdrykkir eru líka algert eitur. Ég er viss um að það sé rétt sem ég hef stundum heyrt, að þessir diet drykkir fiti fólk. Ekki það að kaloríurnar séu að blása út í aspartam-inu heldur rugli þetta gerfisykursdrasl (og allt hitt aukaefnagúmmulaði) efnasamskipti líkamans. Ruglar örugglega í náttúrulegakerfinu í insúlínferlinu t.d. Ég er ekki að byggja þessa “vissu” mína á neinum rannsóknum eða könnunum sem þó eflaust eru til en er samt viss um að þessi “hollustuvara” er að gera meira ógagn í mínum líkama en gagn. Það er fjandi erfitt að hætta að drekka þetta drasl og til að byrja með ætla ég ekki að þamba bara vatn í staðinn, þá myndi ég bara springa 1 2 3. Ég þarf að hugsa þetta eitthvað en held að kaffi og te með koffein verði fyrir valinu svona 50/50 á móti vatninu. Það er góð byrjun en ég ætla að byrja á þessu eftir fyllinguna. Ég er viss um að ég losni hraðar við aukakílóin og ýmsir kvillar og óþægindi fari með, sjáum til. Afeitrunin mun þó sennilega taka sinn tíma….og kosta blóð svita og tár… nei vona nú ekki!!
Jiii ég er bara farin að kvíða fyrir þessari fyllingu…. því ég hef lofað að taka á gosdrykkjaþambinu eftir fyllinguna og svo ætla ég líka að fara að hreyfa mig reglulega og markvisst…. hmm kannski ég fái bara að fresta fyllingunni aðeins… hehe

Gæti unnið kappát við Hjalta Úrsus….. með góðu forskoti

Jæja, fröken gráðug er mætt á svæðið aftur… Held að bandið sé eins og ofvaxinn húllahringur utan um mallakútinn núna. Virðist ekki vera að halda neitt við. Ég gæti gleypt heilt oststykki í einum munnbita og tekið þátt í kappáti… og unnið Hjalta Úrsus með góðu forskoti… þannig er alla vega fílingurinn þessa dagana. Sum sé mín farin að telja niður í fyllinguna sem er í næstu viku. Morgunljóst að það skiptir öllu máli að hafa rétta fyllingu, rétta pressu. Nú þegar öll bólgan er farin og liðnar eru 4 vikur þá finn ég varla fyrir nokkurri fyrirstöðu en kæti mig yfir því að þetta er allt samkvæmt bókinni. Finn aðeins að maturinn er pínu lengur á leiðinni niður en ekki meira en það og fröken gráðug er mætt á svæðið :( Finnst voðalega gott að horfa á lapbandchicka en slóðin er hér til hægi. Hún er búin að vera með bandið í ansi marga mánuði eða um 2 ár að ég held og þurfti að láta taka alla fyllingu úr vegna tímabundna óþæginda og hún segist ekki ráða við sig og borða allt of mikið. Hún er með ágæta reynslu af bandinu og kann á þetta allt og finnur strax fyrir hvað mótstaðan hefur ALLT að segja. Gott að heyra aðra segja frá svipaðri reynslu. Annars er ég með stórabandið sem tekur 14 ml, ekki þetta sem oftast er sett á okkur konurnar sem tekur 10 ml. Sett var í það 5 ml í aðgerðinni sjálfri og þarf greinilega að fara að bæta á það. Ástæðan fyrir því að ég fékk stórabandið var að það var víst svo mikil fita í kringum líffærin á mér. En ég safna fitunni mest á bumbuna, svona eplatýpa, en það er víst hættulegasta fitan líka. Meiri líkur á t.d. sykursýki 2 og fat-liver-disease sem getur m.a. leitt til skorpulifurs eins og hjá alkanum. Í USA er verið að tala um faraldur í tengslum við skorpulifur og offitu samkvæmt Roger Williams sem er einn af mest reyndu læknum heims í tengslum við lifrarsjúkdóma og lifrarígræðslu. 300.000 manns deyja árlega í USA í tengslum við offitu (ekki bara skorpulifur), spáið í því… allir á Íslandi.. OMG bara vegna offitu! Það væri fróðlegt að sjá tölur frá Íslandi með þetta. Kannski landlæknisembættið haldi skrá yfir þetta… aldrei að vita. Viss um að tölurnar eru ansi skerí. Ég segi það enn og aftur að við erum ekki að standa okkur í forvörnum og viðhaldi… væri til í að taka þátt í svolleiðis starfi. Veit að það er fullt af fólki sem er yfirfullt af allskonar góðum hugmyndum í tengslum við forvarnir og viðhald en það verður líka að vera fólk sem hefur beina reynslu af baráttunni, ekki bara fræðingar og fagfólk. Reynslan er lang-dýrmætust og besta vopnið í baráttunni. Þannig að ef þið fréttið að heilbrigðisráðherra sé að fara að stofna grúbbu-látið mig þá endilega vita svo ég geti sent honum sms beint í iphone-inn þar sem ég bíð mig fram til a.m.k. bilstjóra grúbbunnar.

Breytt netfang

Týndi leyniorðinu mínu og þurfti að breyta netfanginu. Nú er það lapbandgirl1@gmail.com

Tími á fyllingu….

Nú finn ég að það er komin tími á fyllingu…. Síðasta vika gekk frábærlega vel í tengslum við mataræði þó svo að ég hafi staðið í stað…. en helgin var frekar svona mikið kaos. Á laugardaginn þá langaði mig aksjúlí í súkkulaði og allir voru að gæða sér á laugardagsnamminu hér á heimilinu. Nú ég hugsaði sem svo; hmm maður verður nú líka að njóta og eitt súkkulaðistykki á laugardögum er bráðnauðsynlegt til að halda geðheilsunni út vikuna… Fékk mér smá, svo smá og aðeins meira smá og svo bara mikið…. ekki skynsamlegt. Ég á náttlega að þekkja mig betur en þetta ég stoppa EKKI fyrr en allt er búið… það á alveg eins við núna eftir bandið. Hins vegar held ég að ég hefði étið helmingi meir ef bandið hefði ekki verið, ég fékk allavega svona smá tilfinningu um að nú væri þetta orðið gott. Á sunnudaginn var ég svo að stelast í snakk á milli máltíða. Þetta er allt svo kristaltært hvering þetta virkar hjá mér, þó svo að ég eigi erfitt með að stjórna því. Þetta virkar þannig að ef ég dæli í mig sykri (súkkulaði, nammi og þh) eða hveiti i einhverju mæli (brauð, pasta…) Þá kallar það bara á meira, meira og meira og það er fjandi erfitt að stoppa þennan vítahring. Þetta er fíkn hjá mér, algerlega á hreinu. Las einu sinni rannsókn sem bandarískur læknir gerði á heilastarfsemi fólks með matarfíkn þegar það borðaði þessi fíknivaldandi efni og það sást breyting á CT skan á heilastarfseminni sem samsvaraði breytingum sem eiga sér stað hjá öðrum fíklum þegar þeir fá efnin sín. Hann útsýrði svo hvernig þetta allt virkaði líffræðilega. Ég þarf að grafa upp þessa rannsókn. Ég fer ofst í þann gírinn að hugsa bara að ég sé nú bara hálfgerður aumingi að geta ekki stjórnað þessu, með engan viljastyrk. Þanng skilaboð fáum við sem erum offeit og/eða með matrfíkn frá umhverfinu. En ég hef ekki enn hitt þá manneskju sem hefur verið töluvert of þung, náð að grenna sig og viðhaldið því í góðan tíma sem heldur þessu fram. Flestir sem hafa átt við offitu að stríða vita að þetta er ekki bara eitthvað einfalt reiknisdæmi, kaloríur inn og kaloríur út, þetta er flóknara. Hins vegar heyri ég oft þegar þessi umræða er tekin að fólk sem hefur aldrei átt við verulega ofþyngd að stríða finnst við feita fólkið vera heldur miklir kjánar. Hvað er málið afhverju borðar þú ekki bara meira grænmeti og ávexti og byrjar á því að hreyfa þig reglulega… segja þau. Þetta er eins og að segja við þann sem drekkur of mikið áfengi… hættu bara að drekka þetta þá lagast allt…. málið er bara ekki svona auðvelt. Við erum með massíft kerfi fyrir alkóhólista sem vilja út úr sínum vítahring en við erum ekki komin svo langt með matarfíknina/offituna. Við viðurkennum alkóhólisma sem sjúkdóm en ekki matarfínknina. Það tók langan tíma að viðurkenna að alkólismi væri sjúkdómur og sérstaklega svona hjá hinum óbreytta og má búast við því sama í tengslum við matarfíknina. En Alþjóðl. heilbrigðisst. er alla vega búin að gefa út að matarfíkn er sjúkdómur. Það er fytsta skrefið og svo er að vinna viðhorf, fordóma og fræðslu út á við.

Markviss hreyfing

Markviss hreyfing er jú ein af þessum átta gullnu reglum okkar. Minnst 30 mín á dag í markvissa hreyfingu. Ég er nú ekki alveg búin að stilla mig inn á þetta. Fer að vísu alltaf út með hundinn minn í ca 20-30 mín gönguferð á dag, but thats it. Búin að setja mér allskonar markmið í hausnum og líka á blað varðandi hreyfinguna en er frekar léleg að fylgja þeim eftir. Ég var dálítið öfgafull í hreyfingu hér í denn og mátti ekki missa úr dag þá var allt ómögulegt. Núna fæ ég hins vegar mjög undarleg líkamseinkenni þegar ég hugsa um að fara að drösla mér í ræktina eða út að hlaupa. Hausinn minn reynir allt til að blöffa mig, kemur með svona hitatilfinningu og kreistir upp hóst og stundum fæ ég jafnvel svona tvísýni þannig að mér finnst best bara að taka því bara rólega í dag og sjá svo til á morgun. Kannast einhver annar við svona…..? En ég er búin að fatta það núna að þetta er sama heilastöðin sem stjórnar þessu og því að ég treð innkaupakörfuna fulla af súkkulaði þegar ég ætla bara að kaupa mjólk og brauð! En ég veit líka að það er brú á milli þessarar púkaheilastöðvar og skynsemisheilastöðvarinnar þannig að núna eru formaður, gjaldkeri og ritstýra að vinna hörðum höndum að því að losa stífluna í brúnni, fá flæðið af stað. Nefndin ætlar að mér skilst að taka 2 vikur í stíflulosunina. Það þarf víst að moka töluverðu af ónothæfu drasli í burtu og hlaða traustari veggi hér og þar. Þegar þessari vinnu er svo lokið þá er gert ráð fyrir að flæðið verði súper gott og ég geti því byrjað markvissa hreyfingu eftir 2 vikna tiltekt. Hljómar afar vel! Já heilinn er flókið fyrirbæri og merkilegt miðað við aldur og fyrri störf hans að hann geti reglulega týnt vinkonu sinni Skynseminni og þurfi bara ansi oft að kalla út björgunar- og leitarflokk sér til hjálpar.

Nammideildin er áskorun!

Ég er búin að standa mig ógissla vel í mataræðinu vikunni. Þrjár máltíðir á dag, ekkert milli mála og kaloríuinntakan töluvert undir því sem hún á að vera til að viðhalda þyngdinni. Ekkert gúmmulaði og eins undarlegt og það hljómar hafa munnvatnskirtlarnir ekki einu sinni tekið kippi þegar ég labba framhjá súkkulaðistykkjunum í búðinni. Þeir sofa bara vært og rótt og halda eflaust að ég sé að spikkspora endalaust í grænmetisdeildinni. Ég ætlaði að gabba þá með því að hlaupa eins og brjálæðingur í gegnum sælgætisrekkann með stefnuna á mjólkurkælinn. Ég setti mig í svaka stellingar (því eins og allir vita er nammideildin stæsta og lengsta deildin í búðinni og ekki gott að koma þaðan óskaðaður) og var búin að redda mér svona sérstökum gleraugum sem hindra alla hliðarsýn og smurði vick kremi undir nefið til að finna enga nammilykt. Ég þaut síðan í gegnum deildina eins og fíll á leið í árás (náði eiginlega hluta af markvissri hreyfingu dagsins í leiðinni þar sem púlsinn þaut upp úr öllu valdi og vegalengdin örugglega 1/5 af fyrirfram ákveðinni hlaupaleið dagsins). Þegar ég var svo komin að mjólkurkælinum og NB enn með tóma körfu eftir nammideildina (sem hefur sennilega aldrei áður gerst) þá uppgötvaði ég að munnvatnskirtlarnir voru enn sofandi :) Ég hef því ákveðið að geyma gleraugun góðu og vick kremið heima næst þegar ég fer í búðarferð og sjá hvað gerist. Maður verður að prófa sig áfram í þessum frumskógi. Spáið samt í þessum nammirekkum og deildum í matvörubúðunum. Ef ég ætla mér að sneiða algerlega fram hjá þeim þarf ég helst að hafa með mér kort af búðinni, áttavita og bæta svo við 20 mín í áætlað búðaráp þar sem það er nánast ómögulegt að komast t.d. að mjólkurkælinum öðruvísi en að fara í gegnum nammideildina. Svona “búðarhönnunarfræðingar” eru örugglega allir með mastergráðu í “völundarhúsafræðum” og “felahlut-leiknum” því allstaðar tekst þeim að fela svona litlar hillur/hluti inn á milli með nammi eða öðru gúmmulaði (þeir ættu frekar að vinna í skrúðgarðyrkju og leigja sig út í barnaafmæli, mikið heilbrigðara vinnuumhverfi). Maður er kannski bara í mestu makindum að velja sér wc pappír og grípur auðvitað í þennan gamla góða en sér svo að þessum þarna við hliðina fylgir stórt mars og hnetubar. ÓMG ég læt sko ekki trixa mig inn í þetta lengur, tek bara þennan gamla góða og hugsa stolt að nú hafi ég náð að láta sölubrelluna fram hjá mér fara… en finnst samt innst inni ég hafa tapað ferlega þegar ég kem að búðarkassanum, þetta var jú tilboð og á maður ekki að vera hagsýnn…

Anývei, ég vigtaði mig svo í gær en þá var formlegur vigtdagur og ég stóð í stað. Ekki gramm af þessa vikuna, auðvitað pínu pirrandi en ég er svo sem vön því að léttast hægt. Þegar ég var í detoxinu hér í denn þá léttist ég helmingi hægar en hinir eins og líkami minn haldi vel í það sem hann á, eigingjarn skratti! En í þetta sinn er ég allavega með góða samvisku, og ekki að brjóta mig niður. Eina sem ég veit að ég þarf að bæta í sambandi við mataræðið er godsrykkja, þamba full mikið diet gos en ég ákvað meðvitað að taka á því seinna á ferlinu. Kílóin munu fara með tíð og tíma enda er þetta ekkert spretthlaup….. heldur frekar svona langhlaup í víðáttu- og hindrunarhlaupsstílnum, kannski með smá interval training inn á milli ;)